Tveir kóngar í íþróttaheiminum, knattspyrnuhetjan Diego Armando Maradona og hnefaleikakappinn Mike Tyson, fóru mikinn í sjónvarpsþætti þess fyrrnefnda í argentísku sjónvarpi í gær. Maradona og Tyson eiga ýmislegt sameiginlegt.
Þeir voru bestu og frægustu íþróttamenn heims á sínum tíma, Maradona heimsmeistari með Argentínu og Tyson heimsmeistari í þungavigt hnefaleika, dýrkaðir og dáðir en sukku báðir í hyldýpi vandamála í einkalífinu. Maradona féll tvisvar á lyfjaprófi og Tyson var dæmdur fyrir nauðgun.
Félagarnir fóru á kostum í þættinum að sögn argentískra fjölmiðla, léku sér í fótbolta og hnefaleikum og fóru vítt og breitt í spjalli sínu. Maradona sagði að það hefði alltaf verið sinn draumur að hitta Tyson og taka við hann viðtal. Tyson sagðist enn þá dreyma um að komast í hringinn á ný og hyllti Maradona fyrir afrek hans á knattspyrnuvellinum.
Áhorfendur klöppuðu Maradona og Tyson lof í lofa þegar þeir yfirgáfu sviðið í fylgd fáklæddra meyja.