Lögbannskrafa Jónínu Benediktsdóttur á fréttaflutning Fréttablaðsins af tölvupóstsendingum tengdum Baugsmálinu var tekin fyrir í Héraðsdómi í morgun. Ákveðið var að aðalmeðferð í málinu verði 29. nóvember næstkomandi.
Hróbjartur Jónatansson, lögmaður Jónínu, segist eiga von á því að dómur falli fyrir jól en að málinu verði væntanlega áfrýjað til Hæstaréttar á hvorn veginn sem það fellur.
Sýslumaðurinn í Reykjavík varð í haust við lögbannskröfu Jónínu á birtingu tölvupósts í Fréttablaðinu þar sem hún kom við sögu í aðdraganda Baugsmálsins svokallaða. Jónína krefst skaðabóta og refsingar yfir Kára Jónassyni, ritstjóra Fréttablaðsins.