Bresk mannréttindasamtök hafa beðið stjórnir 32 landa, þar með talið Íslands, um að koma í veg fyrir að bandarísk yfirvöld fái aðgang að trúnaðarupplýsingum um millifærslur í gegnum belgísku fjármálastofnunina SWIFT.
Bandarísk yfirvöld fóru fram á upplýsingarnar í tengslum við herferð sína gegn hryðjuverkum, og segja talsmenn þeirra að síðan árið 2001 hafi þau fylgst með milljónum millifærslna.
Samtökin Privacy International segja beiðnina brjóta í bága við lög um persónuvernd.
Belgísk yfirvöld sögðu í gær að bandaríska fjármálaráðuneytið hafi eingöngu farið fram á upplýsingar frá skrifstofum SWIFT í Bandaríkjunum, en ekki víðar um heim. Yfirvöld í Belgíu og Kanada láta nú rannsaka hvort skrifstofur SWIFT þar hafi veitt Bandaríkjunum trúnaðarupplýsingar.