„Við erum heilir á húfi, við höfum haldið okkur inni á hótelinu síðan loftárásirnar hófust,“ segir Már Þórarinsson, einn fjögurra flugvirkja sem eru á vegum Atlanta flugfélagsins í Beirút í Líbanon, en Ísraelsher gerði loftárásir á Rafik Hariri flugvöllinn þar í gær. Mennirnir, þrír Íslendingar og einn Belgi, eru þar staddir við vinnu á Airbus fraktvél félagsins.
Hafþór Hafsteinsson, forstjóri Atlanta, segir félagið vera í sambandi við yfirvöld og fyrirmælum þeirra sé fylgt. Þar sem bæði hafnarbann er á Líbanon og eini flugvöllurinn er lokaður, er erfitt fyrir mennina að komast burt úr Beirút og hefur þeim því verið ráðlagt að halda sig inni á hótelinu næstu einn til tvo dagana.
Vinnu mannanna átti að ljúka 21. júlí.