Viðskipti innlent

Tæp tvöföldun á veltu

Kauphöll Íslands Heildarvelta Kauphallarinnar á fyrstu níu mánuðum ársins nam 3.082 milljörðum króna en það er 89 prósentum meiri velta en í fyrra.
Kauphöll Íslands Heildarvelta Kauphallarinnar á fyrstu níu mánuðum ársins nam 3.082 milljörðum króna en það er 89 prósentum meiri velta en í fyrra. MYND/GVA

Heildarvelta Kauphallar Íslands það sem af er ári nam 3.082 milljörðum króna. Lítið vantar upp á að þetta sé tvöfalt meiri velta en á sama tíma í fyrra því heildarvelta á fyrstu níu mánuðum síðasta árs nam 1.630 milljörðum króna og nemur munurinn 89 prósentum. Þá jók skráning Exista í Kauphöllina í september heildarvirði skráðra félaga um tíu prósent.

Þrír stærstu viðskiptabankarnir eru á lista yfir þau fimm veltumestu hlutabréf í Kauphöllinni á tímabilinu en þar er einnig að finna bréf í Straumi-Burðarási og FL Group. Heildarvelta með bréf í félögunum fimm nam rúmum 1.169 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins.

Þá voru nokkur met slegin í Kauphöllinni á tímabilinu. Veltuaukning á hlutabréfamarkaði nam 82 prósentum en 95,7 prósentum á skuldabréfamarkaði á fyrstu níu mánuðum ársins.

Velta með skuldabréf og víxla nam tæpum 229 milljörðum króna í september en það er mesta velta á skuldabréfamarkaði í einum mánuði frá upphafi.

Auk þessa nam velta með skuldabréf og víxla 28,7 milljörðum króna 19. september síðastliðinn og er það metvelta á skuldabréfa- og peningamarkaði á einum degi frá upphafi mælinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×