Viðskipti innlent

Icelandair Group til Vodafone

Við undirritun samnings Hjörtur Þorgilsson, upplýsingatæknistjóri Icelandair Group, Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group, Árni Pétur Jónsson, forstjóri Vodafone á Íslandi, og Bjarni Birgisson, forstjóri Kögunar.
Við undirritun samnings Hjörtur Þorgilsson, upplýsingatæknistjóri Icelandair Group, Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group, Árni Pétur Jónsson, forstjóri Vodafone á Íslandi, og Bjarni Birgisson, forstjóri Kögunar.

Icelandair Group hefur gert samning við Teymi hf. um fjarskiptaþjónustu frá Vodafone og aukið samstarf við Kögun hf. Samningurinn nær meðal annars til síma- og netþjónustu frá Vodafone, GSM, internet, gagnaflutninga og fastlínuþjónustu. Þá ætlar Icelandair að efla enn samstarf sitt við Kögun um þróun lausna og samþættingu upplýsingakerfa.

Síma- og fjarskiptatækni er sífellt vaxandi þáttur í alþjóðlegri flug- og ferðaþjónustu og það er okkar trú að samstarfið við Vodafone muni auka styrk og hagkvæmni á þessu sviði hjá Icelandair Group, auk þess að styrkja enn hið góða samstarf sem við höfum átt við Kögun, segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Vodafone á Íslandi, segir Icelandair Group gera miklar kröfur um að samskipti og rekstur hugbúnaðar gangi snurðulaust, enda með starfsemi víða um heim. Við hjá Teymi erum afar stolt yfir þessum samningi og ánægjulegt að jafn öflugt fyrirtæki og Icelandair skuli treysta okkur fyrir mikilvægum þætti í rekstri sínum, segir hann.

Bjarni Birgisson, forstjóri Kögunar, segir sömuleiðis fyrirtæki sitt hafa unnið náið með Icelandair Group um nokkurra ára skeið og sjá aukna möguleika í samþættingu upplýsingatækni og fjarskiptalausna sem opna muni nýjar þjónustuleiðir bæði fyrir starfsfólk og viðskiptavini fyrirtækja Icelandair Group.

Unnið er að stofnun fjarskipta- og upplýsingatæknifélagsins Teymis hf. sem verður til við fyrirhugaða skiptingu Dagsbrúnar í tvö félög. Teymi á að bjóða fjarskipta- og öryggisþjónustu, gagnaflutninga, hýsingu, hugbúnaðarþjónustu og tölvubúnað, en í samstæðunni verða meðal annars félögin Vodafone, Securitas, Kögun, Skýrr og EJS. Stefnt er að skráningu Teymis í Kauphöll Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×