Erlent

Forðuðust deilur í sjónvarpinu

Segolene Royal, Dominique Strauss-Kahn og Laurent Fabius Gættu þess að grípa ekki hvert fram í fyrir öðru.
Segolene Royal, Dominique Strauss-Kahn og Laurent Fabius Gættu þess að grípa ekki hvert fram í fyrir öðru. MYND/AP

Þrír franskir sósíalistar vilja verða fyrir valinu sem forsetaframbjóðandi franska Sósíalistaflokksins á næsta ári, þau Segolene Royal, Dominique Strauss-Kahn og Laurent Fabius. Á þriðjudagskvöldið mættust þau í dálítið óvenjulegum kappræðum í sjónvarpssal þar sem þau reyndu að höfða til flokksfélaga sinna.

Þau tóku vissa áhættu með því að koma fram í sjónvarpsumræðum. Ef þau hefðu deilt hart, þá fengju kjósendur þá mynd af Sósíalistaflokknum að þar væri allt logandi í illdeilum. Þess vegna gættu þau sín á að grípa ekki hvert fram í fyrir öðru, heldur svöruðu til skiptis spurningum umræðustjórnandans og leiddu hjá sér flestan ágreining.

„Við erum ekki hérna til þess að vinna sigur hvert á öðru," sagði Strauss-Kahn, sem er fyrrverandi fjármálaráðherra í ríkisstjórn Lionels Jospins, 57 ára gamall.

Fabius, sem er sextugur að aldri og fyrrverandi forsætisráðherra, gaf sig út fyrir að vera lengst til vinstri af þeim þremur. Hann talaði um „ofurkapítalisma" og „milljónir launþega sem geta ekki látið enda ná saman."

Royal, sem er yngst þeirra þriggja, 53 ára, hefur verið efst í skoðanakönnunum mánuðum saman og hafði því mestu að tapa. Hún sagði meðal annars fátækt vera að aukast í Frakklandi og banna þyrfti þeim fyrirtækjum, sem þegið hafa aðstoð frá ríkinu, að flytja út starfsemi sína þangað sem vinnuafl er ódýrara.

Félagar í Sósíalistaflokknum eru 200 þúsund og þeir eiga að velja sér forsetaframbjóðanda í prófkjöri þann 16. nóvember. Ef enginn hlýtur meirihluta í það skiptið verður valið á milli tveggja efstu í annarri umferð viku síðar.

Íhaldsflokkur Chiracs forseta, sem lætur af embætti á næsta ári, mun hins vegar velja sinn forsetaframbjóðanda í janúar, en í þeim herbúðum þykir Nicolas Sarkozy innanríkisráðherra sigurstranglegastur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×