Erlent

Bandaríkjamenn stunda ekki pyntingar

George Bush Forsetinn neitaði því á fundi með Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóra NATO, að Bandaríkin stæðu fyrir pyntingum.
George Bush Forsetinn neitaði því á fundi með Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóra NATO, að Bandaríkin stæðu fyrir pyntingum. MYND/AP

George Bush Bandaríkja-forseti segir Bandaríkin ekki stunda pyntingar á föngum, þrátt fyrir orð vara-forsetans Dick Cheney þess efnis að það geti hjálpað til við yfirheyrslur að „dýfa föngunum í vatn“. Þetta var haft eftir varaforsetanum í útvarpsviðtali á dögunum.

Mannréttindasamtök hafa kvartað undan athugasemdum varaforsetans og segja hann lýsa yfir stuðningi við þekkta pyntingatækni, þar sem vatni er hellt yfir höfuð þolandans svo hann telji sig vera að drukkna. Hvíta húsið gaf á föstudaginn út yfirlýsingu þess efnis að Cheney hefði ekki verið að tala um þessa pyntingatækni.

„Þessi þjóð stundar ekki pyntingar og mun ekki beita þeim,“ segir Bush Bandaríkjaforseti. „Við munum yfirheyra fólk sem er handtekið á vígvellinum til að ganga úr skugga um hvort það hefur upplýsingar sem gagnast fyrir varnir þessa lands.“

„Ríkisstjórnin studdi pyntingar, en skipti svo um skoðun,“ sagði John Kerry, öldungadeildarþingmaður demókrata. „Er hún aftur fylgjandi pyntingum?“

Vika er í þingkosningar í Bandaríkjunum og benda skoðanakannanir til að repúblikanar muni tapa þingmeirihluta sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×