Erlent

Lögreglan nær miðborginni á sitt vald

Lögreglumenn í Oaxaca Lögreglusveitir rýmdu miðborgina þar sem mótmælendur hafa hafst við.
Lögreglumenn í Oaxaca Lögreglusveitir rýmdu miðborgina þar sem mótmælendur hafa hafst við. MYND/AP

Alríkislögreglan í Mexíkó náði í gær miðborginni í Oaxaca á sitt vald og ruddi burt kennurum og öðrum mótmælendum sem hafa hafst þar við undanfarna fimm mánuði.

Stjórn landsins ákvað að senda lögreglusveitirnar á vettvang eftir að kennarar höfðu fallist á að hefja störf á ný, en í gær var óvíst hvort kennsla myndi hefjast eða hvort nærvera lögreglunnar myndi tefja fyrir því.

Sumir kennarar sögðust ætla að mæta í vinnu, en aðrir sögðust ætla að sitja heima. Meira en ein milljón skólabarna hefur verið án kennslu í suðurhluta Mexíkó.

Mótmælin hófust þegar kennarar í borginni Oaxaca fóru í verkfall síðastliðið vor. Mótmælin urðu fljótt víðtækari þegar stjórnleysingjar, stúdentar og indjánar gengu til liðs við kennarana og kröfðust þess að Ulises Ruiz ríkisstjóri segði af sér.

Vicente Fox, forseti landsins, sem lætur af embætti 1. desember, hafnaði því jafnan að senda lögreglu á svæðið fyrr en á laugardaginn, þegar samið hafði verið við kennara.

Lögreglumenn og liðsmenn öryggissveita hafa þó stundum skotið á mótmælendur og komið þannig af stað átökum sem hafa kostað að minnsta kosti átta manns lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×