Erlent

Þrjú kíló af silfurpeningum

Víkingaskip Þeir hafa kannski ferðast á svona skipi, víkingarnir sem áttu fjársjóðinn sem fannst í Gautlandi í síðustu viku.
Víkingaskip Þeir hafa kannski ferðast á svona skipi, víkingarnir sem áttu fjársjóðinn sem fannst í Gautlandi í síðustu viku.

Tveir bræður fundu stóran fjársjóð frá víkingatímum á Suður-Gautlandi, nærri Sundre-kirkju, í síðustu viku, kom fram á fréttavef Dagens Nyheter í gær. Að sögn sérfræðinga er um að ræða þrjú kíló af silfurpeningum, líklega frá tíundu öld.

„Þegar ég sá þetta hugsaði ég, „Vá.“ Ég sá að þetta var arabísk silfurmynt svo ég skildi strax að það var eitthvað í þessu,“ sagði Edvin Svanborg, tvítugur sagnfræðinemi, en hann og sautján ára bróðir hans, Arvid, voru að ryðja land fyrir nágranna sinn þegar þeir rákust á peningana.

„Við grófum upp 129 eða 130 peninga á hálftíma,“ sagði Edvin.

Bræðurnir fóru með fjársjóðinn til landeigandans og saman tilkynntu þeir svo fundinn til yfirvalda, sem tóku svo við uppgreftrinum. Enn sem komið er hafa fundist um 1.100 peningar og nokkur armbönd. Munirnir eru flestir í nokkuð góðu ástandi, jafnvel þó að kanínur hafi reynt að gæða sér á nokkrum peningum, segir í frétt sænska blaðsins.

Svanborg-bræðurnir munu fá fundarlaun frá sænska ríkinu, en hversu há sú upphæð verður vita þeir ekki fyrr en uppgreftrinum lýkur og ljóst er hversu stór fjársjóðurinn er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×