Erlent

Finnar fá menningarmálin

Jan-Erik Enestam Finnski ráðherrann gerði sér vonir um framkvæmdastjórastöðuna.
Jan-Erik Enestam Finnski ráðherrann gerði sér vonir um framkvæmdastjórastöðuna. MYND/Magnus Fröderberg/norden.org

Í ljósi þess hve Finnum þótti freklega framhjá sér gengið er ákveðið var að Halldór Ásgrímsson yrði næsti framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, en ekki finnski ráðherrann Jan Erik Enestam, kom það ekki á óvart þegar það fréttist í gær að ákveðið hefði verið að ný norræn menningarmálaskrifstofa, „KulturKontakt Nord“, yrði staðsett í Finnlandi.

Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar höfðu beitt sér fyrir því að þessi skrifstofa yrði á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn, þar sem sameiginleg menningarskrifstofa vestnorrænu landanna er til húsa. Áður hafði finnski þingmaðurinn Martin Saarikangas gagnrýnt harðlega í umræðum á Norðurlandaráðsþingi hvernig staðið var að vali framkvæmdastjórans.

„Finnland hafnar utan norrænu fjölskyldunnar. Framvegis verðum við að sjá til þess að annað eins endurtaki sig ekki,“ sagði Saarikangas. Hann sagði það vekja furðu að nafni íslenska frambjóðandans í starfið hefði verið haldið leyndu.

„Við lifum á árinu 2006 og ekkert norrænt land á að hafa rétt til að halda frambjóðendum leyndum,“ sagði hann.

Svipaða gagnrýni mátti lesa í flestum fjölmiðlum Finnlands í gær. Til dæmis var finnski forsætisráðherrann, Matti Vanhanen, gagnrýndur í Hufvudstadsbladet fyrir að hafa „látið undan yfirganginum í Íslendingum“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×