Arnar Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra, segir dómstóla hér á landi ekki í stakk búna til þess að taka á stórum og flóknum málum eins og Baugsmálinu. „Mér finnst hafa komið í ljós að dómstólar, líkt og kerfið á öllum stigum, séu ekki búnir til þess að taka á stórum málum eins og Baugsmálinu. Það vantar reynslu og þekkingu en sem betur fer koma stór og flókin mál sjaldan upp.“
Freyr Ófeigsson, varaformaður dómstólaráðs og dómstjóri í héraðsdómi Norðurlands eystra, vísar alfarið á bug að íslenskir dómstólar geti ekki tekið á stórum málum. „Ég kannast ekki við að það séu dómstólar sem ekki ráði við Baugsmálið. Mér finnst það ámælisvert að dómarar fái aðdróttanir eins og þessar frá lögreglu.“