Erlent

Vill ekki fara strax frá Írak

Bandaríkjaforseti og byltingarleiðtoginn Bush brosir breitt framan við brjóstmynd af Ho Chi Min, erkiandstæðingi Bandaríkjastjórnar í Víetnamstríðinu.
Bandaríkjaforseti og byltingarleiðtoginn Bush brosir breitt framan við brjóstmynd af Ho Chi Min, erkiandstæðingi Bandaríkjastjórnar í Víetnamstríðinu. MYND/AP

George W. Bush Bandaríkjaforseti sagði í gær að Bandaríkjamenn gætu dregið ýmsan lærdóm af Víetnamstríðinu, meðal annars þann að verkefni bandaríska hersins í Írak muni dragast á langinn.

Hann sagðist ekki hafa tekið neinar ákvarðanir um það hvort bandarískum hermönnum í Írak verði fjölgað eða fækkað á næstunni, en sagðist þó engan veginn hafa gefið stríðið í Írak upp á bátinn.

„Það mun einfaldlega taka langan tíma fyrir hugmyndafræði sem er vongóð - og það er hugmyndafræði frelsisins - að sigrast á hugmyndafræði hatursins. „Við munum ná árangri, nema við hættum."

Þetta sagði Bush á blaðamannafundi í Hanoi, höfuðborg Víetnams, þar sem hann hitti í gær helstu ráðamenn landsins í forsetahöllinni, þar á meðal bæði Nguyen Minh Triet forseta og Nguyen Tan Dung forsætisráðherra. Einnig lagði Bush leið sína í höfuðstöðvar Kommúnistaflokksins og hitti þar valdamesta leiðtoga landsins, Nong Duch Manh, sem er formaður Kommúnistaflokksins.

Bush fékk reyndar ekki jafn æpandi góðar móttökur og Bill Clinton þegar hann kom til Víetnams árið 2000, en þá flykktist mannfjöldinn um forseta Bandaríkjanna sem var í þeim erindagjörðum að bæta samskipti ríkjanna.

Mörgum íbúum landsins þykja aðgerðir Bandaríkjamanna í Írak minna óþægilega á framkomu þeirra í Víetnamstríðinu og minnast þess með stolti að bandaríski herinn hafi verið hrakinn á burt.

Erindi Bush til Víetnams að þessu sinni er fyrst og fremst að taka þátt í leiðtogafundi APEC, sem er efnahagsbandalag Kyrrahafsríkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×