Erlent

Cruise og Holmes í eina sæng á Ítalíu

Leikaraparið Tom Cruise og Katie Holmes gekk í það heilaga í gær. Fór athöfnin fram í fallegum miðaldakastala í Bracciano á Ítalíu að viðstöddu fjölmenni, auðkýfingum og dægurstjörnum á borð við Jim Carrey, Brooke Shields og Beckham-hjónin. Voru brúðhjón og gestir umsetin fjölmiðlafólki enda langt síðan brúðkaup hefur vakið aðra eins athygli.

Margmenni hafði jafnframt safnast saman fyrir utan kastalann, enda hefur mikil eftirvænting ríkt síðan Cruise bað Holmes í Eiffelturninum í júní á þessu ári. Höfðu allra hörðustu aðdáendurnir beðið klukkutímunum saman eftir að berja átrúnaðargoð sín augum.

Við athöfnina var kennisetningum Vísindakirkjunnar fylgt í hvívetna, þar sem brúðhjónin eru meðlimir hennar. Þurftu Cruise og Holmes jafnframt að undirgangast borgaralega athöfn þar sem vísindatrú er ekki lögleg á Ítalíu.

Nokkra athygli vakti að Holmes klæddist svörtu en Giorgio Armani hannaði brúðarkjólinn. Var það engu að síður mál manna að brúðurin hefði sjaldan verið fegurri.

Íbúar Bracciano voru himinlifandi með daginn. Mátti panta rétti á veitingahúsum sem skírskotuðu til kvikmynda brúðhjónanna og naut eplakaka nefnd eftir Suri litlu óhemju vinsælda. Föt sem minntu á búninga sem hjónin hafa klæðst í myndum sínum voru einnig fáanleg í bænum en ekki fylgir sögunni hvernig þau seldust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×