Erlent

Réttmætar sjálfbærar veiðar

Eugene Lapointe Forseti IWMC.
Eugene Lapointe Forseti IWMC.

Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin World Conservation Trust hafa lýst yfir stuðningi við sjálfbærar hvalveiðar Íslendinga. Samtökin hafa höfuðstöðvar í Sviss og beita sér fyrir „sjálfbærri nýtingu villtra auðlinda náttúrunnar til sjós og lands sem leiðar til náttúruverndar“, eins og segir í fréttatilkynningu.

„Íslendingar hyggjast veiða svo örfáa hvali að eingöngu þeir sem eru blindaðir af eigin órum geta haldið því fram að veiðarnar gætu haft einhver neikvæð langtíma-áhrif á hvalastofna. Veiðarnar eru augljóslega sjálfbærar og fyllilega réttmætar,“ segir Eugene Lapointe, forseti samtakanna, en hann var um árabil framkvæmdastjóri CITES, alþjóðasamningsins um alþjóðaviðskipti með villt dýr og plöntur í útrýmingarhættu.

Lapointe bendir á að fordæmingarupphróp stjórnmálamanna og talsmanna dýraverndarsamtaka séu byggð á innantómum rökum. Í raun sé gremju þeirra fyrst og fremst að rekja til þeirra eigin getuleysis. „Þeir hafa hvorki vald né tæki til að hindra Íslendinga, Norðmenn og Japani í að veiða hvali. Þeir hafa eyðilagt eina tækið sem þeir gætu beitt til áhrifa á stjórn hvalveiða, [Alþjóðahvalveiðiráðið], og eina ráð þeirra er því að grípa til þess að lesa yfir og móðga hvalveiðiþjóðir í kastljósi eigin fjölmiðla. Sannleikanum er hver sárreiðastur,“ skrifar Lapointe í forystugrein á heimasíðu samtakanna, www.iwmc.org.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×