Sett eru fram fjögur meginmarkmið í aðgerðaáætluninni. Tilgreindir eru ábyrgðaraðilar við hverja aðgerð og aðrir sem koma að framkvæmd þeirra. Verklok og tímarammi aðgerða eru tilgreind. Eftirfarandi markmið eru höfð að leiðarljósi:
Að auka fyrirbyggjandi aðgerðir sem stuðla að viðhorfsbreytingu í þjóðfélaginu og opinni umræðu um ofbeldi gegn börnum og um kynbundið ofbeldi.
- Að styrkja starfsfólk stofnana í því að koma auga á einkenni ofbeldis hjá börnum og kynbundins ofbeldis og koma þolendum til aðstoðar.
- Að tryggja einstaklingum sem eru þolendur ofbeldis á heimili eða kynbundins ofbeldis viðeigandi aðstoð.
- Að rjúfa vítahring ofbeldis með því að styrkja meðferðarúrræði fyrir gerendur. Um er að ræða efnismikla aðgerðaáætlun sem felur í sér 37 aðgerðir. Þær byggjast á samhæfingu, fræðslu, þjálfun og viðeigandi meðferð eða öðrum nauðsynlegum viðbrögðum. Hverri aðgerð er lýst sérstaklega ásamt tilgangi hennar. Einstökum ráðuneytum hefur verið falin ábyrgð á framkvæmd sérhverrar aðgerðar ásamt því að tilgreindur er tiltekinn tímarammi um framkvæmdina. Ég hvet almenning til að kynna sér áætlunina í heild á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins á vefslóðinni www.felagsmalaraduneyti.is.
Við viljum árangurÉg ítreka það að félagasamtök hér á landi hafa unnið ómetanlegt starf gegn ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi. Þá hafa einstaklingar sem hafa verið beittir slíku ofbeldi gengið fram fyrir skjöldu og greint frá reynslu sinni. Með því hafa þeir opnað umræðuna og aukið skilning samfélagsins á alvarleika ofbeldisins og afleiðingum þess. Fyrir það vil ég þakka.
Ég vil jafnframt undirstrika að þeir sem beita ofbeldi geti leitað sér aðstoðar. Verkefninu "Karlar til ábyrgðar" sem félagsmálaráðuneytið stendur að er meðal annars ætlað að ráðast að rótum vandans og rjúfa þann vítahring sem beiting ofbeldis getur verið.
Ég legg ríka áherslu á að þeirri aðgerðaáætlun sem nú hefur verið samþykkt verði fylgt eftir og að árangur af henni verði metinn eftir því sem verkefnum og aðgerðum vindur fram. Þeir sem hafa orðið fyrir ofbeldi eiga það svo sannarlega skilið að sem flestir komi þeim til hjálpar. Við viljum sjá árangur og við viljum sjá breytingar.