Viggó Sigurðsson landsliðsþjálfari í handbolta hefur sagt starfi sínu lausu sem þjálfari íslenska landsliðsins. Þetta tjáði hann blaðamanni Morgunblaðsins í spjalli á flugvelli við heimleið eftir Evrópumótið í Sviss. Fram kemur í Morgunblaðinu að Viggó hafi verið óánægður með með þann samning sem hann gerði við HSÍ og einnig það vinnuumhverfi sem hann hafi unnið í og því ákveðið að nýta sér gagnkvæman þriggja mánaða uppsagnarfrest.
Viggó segir að honum sé ekki stætt á því að vinna í núverandi starfsumhverfi og tekur fram að ákveðnir fjölmiðlar hafi fjallað um hann á mjög ófagmannlegan hátt. Hann útilokar reyndar ekki að hann haldi áfram með landsliðið en segir að það þurfi að vera algerlega að frumkvæði HSÍ ef hann á að endurnýja samning sinn. Viggó er ósáttur við þau kjör sem hann fær samkvæmt núgildandi samningi og segir að veruleg breyting þurfi að verða þar á ef hann á að halda áfram að þjálfa landsliðið.
|