8-liða úrslitum Afríkukeppninnar í knattspyrnu lauk í gærkvöldi þegar lið Fílabeinsstrandarinnar sigraði Kamerún eftir maraþon vítaspyrnukeppni.
Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en Samuel Etoo komst næst því að skora fyrir Kamerúna en markvörður Filabeinsstrandarinnar, Jean-Jacques Tizie varði skot hans. Seinni hálfeikurinn var markalaus en á 2. mínútu framlengingarinnar kom Bakary Kone Filabeinsströndinni yfir. Forystan dugði það aðeins í 3 mínútur því Albert Meyong Ze jafnaði metin. Úrsltin réðust í maraþon vítaspyrnukeppni.
Eftir 22 vítaspyrnur var staðan jöfn, 11-11. Markahæsti leikmaður keppninnar, Kamerúninn Samuel Etoo, sem spilar með Barcelona á Spáni, skaut þá yfir markið. Didier Drogba sóknarmaður Chelsea skoraði síðan sigurmark Fílabeinsstrandarinnar.
Lið Fílabeinsstrandarinnar mætir Nígeríumönnum í undanúrslitum en Nígería sló Afríkumeistara Túnisa út úr keppni í gær.