Diego Forlan, fyrrum leikmaður Manchester United og framherji Úrúgvæ, segir að enska landsliðið hafi alla burði til að ná langt á HM í sumar, en telur að Brasilíumenn muni verja titil sinn frá því árið 2002.
Forlan verður í liði Úrúgvæ sem sækir Englendinga heim í æfingaleik á Anfield nú í kvöld. "Enska liðið er mjög sterkt og ég held að það geti farið langt á HM, því það er með leikmenn innanborðs sem hafa mikla reynslu. Ég held samt að Brasilíumenn verði heimsmeistarar aftur því þeir eru einfaldlega með svo mikið af frábærum leikmönnum innan sinna raða," sagði Forlan.