Fram tyllti sér á topp DHL-deildar karla í handbolta í dag með tveggja marka sigri á ÍBV á erfiðum útivelli í Eyjum, 32-34. Tveir leikir fóru fram hjá körlunum í efstu deild en Stjarnan lagði Hauka í Ásgarði með 5 marka mun, 33-28.
Patrekur Jóhannesson var markahæstur hjá Stjörnunni með 9 mörk og Tite Kalandadze kom næstur með 7 mörk. Hjá Haukum var Freyr Brynjarsson markahæstur með 7 mörk.
Jóhann Einarsson var markahæstur Framara í Eyjum en hann skoraði 9 mörk og næstir komu Rúnar Kárason og Sergey Serenko með 5 mörk hvor.
Fram er efst í deildinni með 30 stig eftir leiki dagsins, Haukar í öðru sæti með 29, Valur í þriðja með 27 stig og Stjarnan í fjórða sæti 24 stig en á leik til góða.