Dallas Mavericks setti mikla pressu á meistara San Antonio Spurs í nótt þegar liðið hafði betur 92-86 í leik liðanna í San Antonio. Það var Þjóðverjinn Dirk Nowitzki sem gerði gæfumuninn hjá Dallas og skoraði 19 af 30 stigum sínum í síðari hálfleik. Nú hefur San Antonio því aðeins eins leiks forystu á Dallas á toppi Vesturdeildarinnar, en baráttan um efsta sætið verður gríðarlega hörð á lokasprettinum.
Detroit tapaði nokkuð óvænt fyrir Orlando á útivelli 89-87, en Detroit var án Rip Hamilton sem var viðstaddur jarðarför. Hedo Turkoglu skoraði 26 stig fyrir Orlando, en Chauncey Billups skoraði 25 stig fyrir Detroit.
Atlanta sigraði Washington 114-101. Josh Smith skoraði 25 stig fyrir Atlanta, en Gilbert Arenas skoraði 41 stig fyrir Washington.
Philadelphia tapaði enn einum leiknum á heimavelli sínum og nú fyrir Boston 109-99 og eru vonir Philadelphia um að komast í úrslitakeppnina nú að veikjast með hverjum deginum. Allen Iverson skoraði 18 af 37 stigum sínum í fyrsta leikhlutanum, en Paul Pierce skoraði 33 stig og hirti 12 fráköst fyrir Boston.
New Orleans lagði Toronto 95-89. David West skoraði 19 stig og hirti 9 fráköst fyrir New Orleans, en Mike James skoraði 36 stig fyrir Toronto.
Utah lagði Minnesota á útivelli 103-95, þar sem Minnesota hvíldi lykilmenn sína lengst af leik og greinilegt er að liðið er búið að leggja árar í bát á tímabilinu sem hefur verið mikil vonbrigði. Carlos Boozer skoraði 30 stig og hirti 9 fráköst fyrir Utah, en Kevin Garnett skoraði 14 stig og hirti 13 fráköst á þeim örfáu mínútum sem hann spilaði - þeim fæstu sem hann hefur spilað í mörg ár með liðinu.
New York lagði Indiana 98-96 þar sem Jamal Crawford skoraði 23 stig fyrir New York og þar af sigurkörfuna í lokin. Peja Stojakovic skoraði 32 stig fyrir Indiana og Jermaine O´Neal var með 25 stig.
Memphis lagði Milwaukee 100-90 þar sem Spánverjinn Pau Gasol átti stórleik hjá Memphis, skoraði 33 stig, hirti 14 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Michael Redd skoraði 25 stig fyrir Milwaukee.
Seattle lagði Portland 121-108. Ray Allen skoraði 38 stig fyrir Seattle í leiknum og hefur nú skorað næst flestar þriggja stiga körfur allra leikmanna í sögu NBA á eftir Reggie Miller. Juan Dixon skoraði 28 stig fyrir Portland.
Houston vann Golden State 100-93. Yao Ming skoraði 30 stig og hirti 14 fráköst fyrir Houston, en Jason Richardson skoraði 29 stig fyrir Golden State.
Sacramento vann LA Clippers enn eina ferðina 96-93, þar sem Mike Bibby skoraði 30 stig fyrir Sacramento og Ron Artest skoraði 14 af 23 stigum sínum í fjórða leikhlutanum. Clippers mistókst því að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni í fyrsta skipti í níu ár. Cuttino Mobley skoraði 19 stig fyrir Clippers.
Loks vann Phoenix góðan sigur á LA Lakers 107-96. Kobe Bryant skoraði 51 stig fyrir LA Lakers en Steve Nash var með 25 stig fyrir Phoenix.