Norskir fjölmiðlar greina frá því í dag að útsendarar þriggja enskra úrvalsdeildarfélaga hafi fylgst með Veigari Páli Gunnarssyni í gærkvöld þegar hann skoraði eitt mark og lagði upp annað í 3-1 sigri Stabæk á Tromsö í norsku úrvalsdeildinni.
Veigar segir í samtali við VG að hann hafi vitað af útsendurum Portsmouth, Tottenham og Charlton á leiknum og hafi hann því verið staðráðinn í að gefa þeim sérstaka frammistöðu. Hann segist hafa verið nokkuð taugatrekktur í fyrri hálfleiknum, en hafi svo náð sér vel á strik í þeim síðari.
Veigar er sem stendur markahæstur í norsku deildinni með 10 mörk, en hann er með lausa samninga hjá Stabæk að lokinni yfirstandandi leiktíð. Hann segist ekki útiloka að spila á Englandi ef sér bærist gott tilboð.