Erlent

Þrjú börn myrt í Saint Louis

Íbúar í Saint Louis í Bandaríkjunum eru slegnir óhug eftir að þrjú börn fundust myrt þar í borg í gær. Skömmu áður var 26 ára kona ákærð fyrir að hafa myrt móður þeirra með því að skera fóstur úr kvið hennar.

Lík barnanna þriggja fundust í fjölbýlishúsi í borginni í gærkvöldi. Fórnarlömbin voru þau DeMond Tunstall, sjö ára, bróðir hans Ivan, tveggja ára, og systir þeirra Jinela, sem var eins árs. Þeirra hafði verið leitað síðan á mánudaginn og tóku borgarar þátt í leitinni ásamt lögreglu. Héldu flestir í vonina um að þau fyndust heil á húfi en sú varð ekki raunin.

Móðir barnanna, hin 23 ára gamla Jimella Tunstall, fannst látin á byggingarlóð í borginni á föstudaginn. Hún var þá komin sjö mánuði á leið og hafði morðingi hennar skorið fóstrið úr kvið hennar.

Nokkru síðar var hin 26 ára gamla Tiffany Hall handtekin og síðar ákærð fyrir að hafa myrt Jimellu. Tiffany var fjölskylduvinur og því þekktu börnin vel til hennar.

Að sögn vitna mun Tiffany hafa greint frá því fyrir nokkrum dögum að hún hefði jarðað andvana fætt barn sitt og talið að þar sé grafið fóstur konunnar.

Lögregla telur að Tiffany hafi rotað Jimellu og síðan skorið fóstrið úr kvið hennar með skærum. Jimellu hafi síðan blætt út.

Óvíst er hvort Tiffany verður ákærð fyrir morðið á börnunum þremur og ekki vitað hvort hún hafi átt sér vitorðsmann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×