Erlent

Páfi vottar múslimum virðingu sína

Benedikt sextándi páfi átti í dag fund með fulltrúum frá tuttugu múslimaríkjum í Gandolfo kastala, sem er sumarsetur hans. Öllum bar saman um að fundurinn hefði einkennst af gagnkvæmri virðingu og hlýju.

Í ávarpi sínu nefndi páfi ekki ósættið sem orð hans í Þýskalandi vöktu. Hann fullvissaði hinsvegvar múslima um virðingu sína og lagði áherslu á að kristnir menn og múslimar yrðu að vinna saman að því að berjast gegn skorti á umburðarlyndi og gegn ofbeldi. Hann sagði að kristnir og múslimar yrðu að læra af reynslunni og vinna saman að betri framtíð.

Sendiherra Íraks sagði að hann hefði verið ánægður með orð páfa. Hann sagðist biðja til Guðs um að múslimar, kristnir menn og gyðingar, og fólk af öllum öðrum trúarbrögðum, fyndi leiðir til að lifa saman í friði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×