Erlent

Aðgerðir lögreglu taldar hafa sett atburðarás af stað

Gíslatöku vopnaðs manns í menntaskóla í Colorado í Bandaríkjunum í gær lyktaði með því að hann stytti sér aldur eftir að hafa skotið unglingsstúlku til bana. Aðgerðir lögreglu virðast hafa hrundið atburðarásinni af stað.

Engin deili eru þekkt á gíslatökumanninum að öðru leyti en því að hann var á aldrinum 30-50 ára og með skegg. Hann lét til skarar skríða síðdegis í gær í smábænum Bailey í Colorado, um 50 km frá stórborginni Denver, en þá réðst hann inn í menntaskóla bæjarins og tók þar sex unglingsstúlkur í gíslingu.

Lögregla náði fljótlega sambandi við hann og skömmu síðar féllst hann á að sleppa fjórum stúlknanna. Enn er ekki ljóst hverjar kröfur mannsins voru en hitt er vitað að hálftíma áður en fresturinn sem hann setti rann út sleit hann öllum samskiptum við lögregluna.

Sérsveitarmenn ákváðu þá að ráðast til inngöngu og í þann mund sem þeir brutust inn í skólastofuna skaut maðurinn aðra stúlkuna og síðan sjálfan sig. Stúlkan var flutt helsærð á sjúkrahús þar sem hún lést skömmu síðar. Hún var sextán ára gömul. Hinni tókst að bjargra ómeiddri.

Að vonum greip um sig mikil skelfing á svæðinu enda er smábærinn Columbine skammt frá þar sem tveir piltar bönuðu þrettán samnemendum sínum 1999.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×