Viðskipti innlent

Jarðboranir kaupa Sæþór

Jarðboranir hf., dótturfélag Atorku Group, hefur keypt allt hlutafé í verktakafyrirtækinu Sæþór ehf., ásamt tækjakosti og búnaði. Kaupverð nemur 130 milljónum króna.

Rekstur Sæþórs mun eftirleiðis heyra undir starfsemi Björgunar, dótturfélags Jarðborana. Verkefni Sæþórs eru einkum á sviði hafnardýpkunar en auk þess hefur fyrirtækið m.a. látið að sér kveða við hafnargerð, vega- og brúargerð, viðhaldsframkvæmdir á mannvirkjum og framkvæmdir fyrir orkuveitur.

Í tilkynningu um kaupin er haft eftir Bent S. Einarsson, forstjóra Jarðborana, að með kaupum á Sæþóri sé verið að framfylgja þeirri stefnu fyrirtækisins að eflast bæði að innri og ytri vexti. Séu kaupin rökrétt fjárfesting sem falli í senn vel að starfsemi Björgunar og samstæðu Jarðborana í heild.

Ekki er stefnt að neinum grundvallarbreytingum á starfsemi Sæþórs og telur Bent ótvíræðan styrk í því að núverandi starfsfólk verði áfram hjá fyrirtækinu.

Áætluð velta Sæþórs á árinu nemur um 240 milljónum króna og áætlað að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir verði um 100 milljónir króna. Vaxtaberandi langtímaskuldir félagsins eru engar og nettó veltufjárliðir sömuleiðis engir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×