Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari á nú fullt í fangið með að stilla upp sterku liði í stórleiknum gegn Spánverjum á laugardaginn eftir að Olof Mellberg frá Aston Villa bættist í hóp þeirra sem fyrir voru á sjúkralista sænska liðins.
Mellberg lenti í samstuði við félaga sinn Kim Källström á æfingu í dag og bólgnaði hnéð á honum upp í kjölfarið. Lagerbäck er enn að bíða fregna af þeim Marcus Allbäck og Tobias Linderoth og útlit er fyrir að þjálfarinn verði að stokka eitthvað upp í vörninni í kjölfar meiðsla Mellberg.
Framlína Svía er þó stærsta spurningamerkið því eftir að Henrik Larsson hætti, Zlatan Ibrahimovic var settur út í kuldann og Allbäck meiddist, eru aðeins óreyndari menn á borð við Markus Rosenberg hjá Ajax og Johan Elmander hjá Toulouse til að leysa þá af hólmi. Þá er talið líklegt að markvörðurinn Rami Shaaban verði í markinu í stað Andreas Isaksson hjá Manchester City sem er meiddur.