Erlent

Ekki fengu allir Nyhedsavisen

Nýja danska fréttablaðið Nyhedsavisen, sem hóf göngu sína í morgun, stendur ekki undir hástemmdum loforðum stjórnenda um byltingarkennt dagblað, að mati lektors í danska blaðamannaháskólanum. Erfiðleikar hrjáðu blaðið á fyrsta degi, því vegna bilunar í prentvél tókst aðeins að koma helmingi upplagsins í umferð.

Ekki var hægt að prenta 250.000 eintök af blaðinu vegna bilunar í prentvél í Kaupmannahöfn. Auk þessa klikkaði dreifingin sums staðar.

Henrik Berggreen, lektor í danska blaðamannaháskólanum, segist almennt séð hafa orðið fyrir vonbriðgum. Hann fékk blaðið ekki borið út til sín í morgun. Hann varð sér þó úti um Nyhedsavisen og bar fyrsta eintakið saman við hin fríblöðin. Hann telur útlit blaðsins gott, það ágætlega skrifað, burtséð frá nokkrum prentvillum, og segir að blaðamenn eigi ágætis spretti í efnistökum, en sér finnst þetta ekki byltingarkennt dagblað. Sem dæmi séu þrjár ómerkilegar fréttir á forsíðunni, að hans mati. Ef hann hefði ekki verið að gera samanburð á þessum blöðum hefði hann flett yfir forsíðuna.

Tvö stærstu útgáfufélög Danmerkur náðu að verða á undan Nyhedsavisen með fríblöðin Dato og 24 tímar.

Fred Jacobsen, varaformaður danska blaðamannafélagsins, spyr hversu mikla orku og fjármuni sé búið að setja í þetta dagblaðastríð. Seinna gæti dagblaðabransinn haft þörf fyrir þessa peninga og þá gæti fjárskorturinn bitnað bæði á gæðum blaðanna og félagsmönnum blaðamannafélagsins.

Ritstjóri danska fréttablaðsins sagði í morgunþætti sjónvarpsstöðvarinnar TV2 í morgun að Nyhedsavisen ætti að bera saman við áskrifarblöðin en ekki hin fríblöðin, hvað gæði og efnistök varðar.

Henrik segir gott að hafa metnað til þess að ná sömu gæðum og áskriftarblöðin, en sér finnst blaðið ekki eiga það skilið í dag að vera borið saman við þau blöð. Ef hann skoði Nyhedsavisen annars vegar og 24 tíma hins vegar, þá sjái hann að Nyhedsavisen líti betur út og virki meira traustvekjandi. En í raun og veru finnst honum að í dag sé meira að lesa í 24 tímum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×