Erlent

Ofbeldi gegn börnum oft hulið og samþykkt

MYND/AP

Ofbeldi gegn börnum er oft hulið og jafnvel samþykkt í samfélaginu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um ofbeldi gegn börnum sem kynnt var á allsherjarþingi samtakanna í gær.

Um er að ræða fyrstu heildstæðu greininguna á ofbeldi gegn börnum og segir í skýrslunni að það birtist meðal annars í kynferðisofbeldi, vanrækslu, pyndingum og vinnuþrælkun og skaðlegum hefðum eins og umskurði kvenna. Þar segir enn fremur að ríki beri ábyrgð á því að banna allt ofbeldi gegn börnum og veita þurfi fé til áætlana og verkefna til að komast að rót vandans. Minnt er á að ofbeldi sé hluti af daglegu lífi sumra barna en erfitt sé að gera sér grein fyrir umfangi vandans þar sem ofbeldið sé oft falið.

Þó hafi Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætlað að að 53 þúsund börn undir sautján ára aldri hafi verið myrt árið 2002 og samkvæmt Alþjóðavinnumálastofnuninni er áætlað að 5,7 milljónir barna hafi verið þvinguð til vinnu, 1,8 milljónir barna hafi verið þvinguð til vændis eða til starfa í klámiðnaðinum og 1,2 milljónir barna hafi orðið fórnarlömb mansals árið 2000.

UNICEF á Íslandi og Barnaheill - Save the Children á Íslandi fagna skýrslu Sameinuðu þjóðanna og segjast í tilkynningu vonast til þess að hún verði til þess að draga úr ofbeldi gegn börnum hvar sem það kann að finnast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×