Erlent

Hremmingar sænsku stjórnarinnar halda áfram

Cecilia Stego Chilo, menntamálaráðherra Svíþjóðar, sagði af sér embætti í dag eftir að uppvíst varð að hún hefði svikist undan því að greiða sjónvarpsafnotagjöld árum saman. Aðeins tveir dagar eru liðnir frá því að viðskiptaráðherra landsins sagði af sér af svipuðum ástæðum.

Afsögn Chilo kom á afar óþægilegum tíma fyrir ríkisstjórn Fredericks Reinfeldt því í dag kynnti hún sitt fyrsta fjárlagafrumvarp, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir skattalækkunum upp á röska 360 milljarða íslenskra króna. Frumvarpið fékk hins vegar lítið pláss í fréttatímum dagsins því allra augu beindust að menntamálaráðherranum sem lét undir höfuð leggjast að greiða afnotagjöld af sjónvarpstæki sínu í sextán ár. Til að bæta gráu ofan á svart viðurkenndi Chilo einnig að hafa svikið undan skatti þegar hún greiddi fóstru barna sinna laun. Aðeins eru tveir dagar liðnir frá því að stalla Chilo í stjórninni, Maria Borelius, stóð upp úr stóli sínum sem viðskiptaráðherra. Hún hafði einnig greitt barnfóstrum laun án þess að gefa þau upp til skatts, auk þess að hafa vikið sér undan því að greiða eignaskatt af sveitasetri sínu með því að nota fyrirtæki skráð í skattaparadís til að kaupa það. Hveitibrauðsdagar nýju hægri stjórnarinnar virðast þannig vera í stysta lagi því tveir ráðherrar hafa þegar yfirgefið hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×