Erlent

30 ríki gætu þróað kjarnorkuvopn

Mohamed ElBaradei, yfirmaður Alþjóða Kjarnorkumálastofnunarinnar.
Mohamed ElBaradei, yfirmaður Alþjóða Kjarnorkumálastofnunarinnar. MYND/AFP

Allt að 30 ríki gætu þróað kjarnorkuvopn ef ekkert verður að gert. Þetta er mat fulltrúa Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar. 9 ríki heims ráða yfir kjarnorkuvopnum nú svo vitað sé.

Það var í síðustu viku sem Norður-kóreumenn gerður tilraun með kjarnorkusprengju og því 9 ríki í heimi sem vitað er að hefur yfir vopni af þessari gerð að ráða.

Mohamed ElBaradei, yfirmaður Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar, segir það freistandi fyrir sum ríki að þróa kjarnorkuvopn. Þetta kom fram á ráðstefnu í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Vínarborg í Austurríki. ElBaradei sagði 20 til 30 ríki hafa getu til að þróa vopna af þessu tagi á stuttum tíma. Þessi ríki séu því í reynd kjarnorkuveldi.

Hann segir skorta á að öryggi sé tryggt í alþjóðasamfélaginu. Einnig hafi þeim kjarnorkuveldum sem fyrir séu ekki auðnast að eyða vopnabúri sínu. Þetta tvennt geri það erfitt að sannfæra önnur ríki um að þróa ekki kjarnorkuvopn.

Á ráðstefnunni í Vínarborg verður leitað nýrra leiða til að greina það hvort ríki séu að þróa kjarnorkuvopn. Rætt verður hvernig má nota gervihnattamyndir og aðra fullkomna tækni til að leggja mat á slíkt.

ElBaradei lagði áherslu á að erfitt reyndist að hefta upplýsingastreymi í tengslum við kjarnorkurannsóknir því upplýsingaflæði nú til dags væri mikið.

Auk Norður-kóreumanna hafa Íranar auðgað úran sem talið er liður í þróun þeirra á kjarnorkuvopnum. Fram kemur á fréttavef BBC að Brasilíumenn hafa einnig byrjað auðgun úrans auk þess sem Suður-kóreumann, Japanar, Sádar og Egyptar eru sagðir hugsanlega geta þróað vopn af þessari gerð og hafi auk þess áhuga á því.

Aðeins tvo ríki heims hafa sjálfviljug hætt þróun kjarnorkuvopna, þ.e. Suður-Afríka, sem lét frá sér fullbúin vopn snemma á tíunda áratug síðustu aldar, og Líbía, sem upplýsti um kjarnorkuáætlun sína og lagði hana á hilluna árið 2003. Áætlun Líbíumanna var þó skammt á veg komin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×