Erlent

Hvalveiðarnar vekja heimsathygli

Helstu umhverfisverndarsamtök heims bregðast ókvæða við og fjölmiðlar í öllum heimsálfum greina frá málinu, ýmist með skömmum eða lofi. Tölvupóstur með mótmælum streymir nú til íslenskra sendiráða erlendis en um formleg mótmæli hefur ekki verið að ræða.

Umhverfissamtökin véfengja meðal annars heimildir íslendinga til veiðanna, telja þær brjóta í bága við hvalveiðibannið, þær séu álitshnekkir fyrir íslendinga um allan heim, engin markaður sé lengur í heiminum fyrir hvalkjöt og að þetta tiltæki kunni að hvetja aðrar þjóðir til hvalveiða, svo nefnd séu nokkur gagnrýnisatriði. Ein samtök, World Conservative Trust, lýsa sig þó hlynnt þeim en það er kannski ekki alveg að marka því á meðal stjórnarmanna er Steinar Bastesen, forvígismaður norskra hvalveiðimanna. Sendiráðum Íslands í Bretlandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum hefur borist fjölmörg mótmælaskeyti í tölvupósti og síma en ekki hefur verið um formleg mótmæli að ræða. Fjölmiðlar víða um heim hafa hins vegar gert málinu góð skil. Það má meðal annars merkja af vefgáttinni Google News sem leitar í öllum fréttamiðlum sem skrifaðir eru á ensku. Nú síðdegis höfðu tæplega þrjú hundruð blaðagreinar birst um málið og þá eru ekki taldar með þær greinar sem ritaðar eru á öðrum tungumálum. Einna hörðustu viðbrögðin koma frá Nýja-Sjálandi. Þarlend stjórnvöld segja ákvörðun íslensku stjórnarinnar aumkunaverða og þeim skilaboðum verði komið rækilega á framfæri. Íslendingar eiga þó sína bandamenn. Jákvæður tónn er í umfjöllun danska blaðsins Politiken um málið og norska blaðið Fiskaren fagnar ákvörðuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×