Æðsti klerkur múslima, í Ástralíu, hefur vakið mikla reiði með því að segja að léttklæddar konur biðji um að þeim sé nauðgað. Jafnréttisráðgjafi ríkisstjórnarinnar vill að klerkurinn verði rekinn úr landi.
Taj Aldin al-Hilali hefur oft valdið uppnámi í Ástralíu. Hann hefur meðal annars lagt blessun sína yfir sjálfsmorðsárásir, kallað árásirnar 11. september verk Guðs og kennt Gyðingum um öll heimsins stríð og vandamál.
Í nýlegri predikun gagnrýndi hann konur sem ganga léttklæddar, nota farða og eru ekki með slæður. Klerkurinn greip til líkingamáls. "Ef þú setur kjöt, sem ekki er í umbúðum, út á götu og kötturinn kemur og étur það, hverjum er það þá að kenna, kettinum eða kjötinu ?"
Og hann svarar sjálfur spurningunni: "Það er kjötið sem er vandamálið. Ef hún væri heima hjá sér, í herberginu sínu, og með slæðuna, þá hefði ekkert gerst."