Erlent

Íraksforseti vill hafa bandaríska herinn 2-3 ár til viðbótar

MYND/AP

Íraski forsetinn Jalal Talabani sagði í morgun að bandarískar hersveitir ættu að vera í landinu allt að þrjú ár í viðbót svo að lögregla á svæðinu geti byggt upp starfsemi sína. Þetta kom fram á fréttamannafundi sem hann hélt við upphaf vikuferðalags um Frakkland.

Talabani neitaði því líka að Írak væri á barmi borgarastyrjaldar en sagði að um þessar mundir væru alþjóðlegir hryðuverkmenn að beita sér af öllu afli í Írak. "Við þurfum tíma, ekki 20 ár, en tíma. Ég get persónulega ábyrgst að tvö til þrjú ár séu nóg til þess að byggja upp öryggissveitir okkar." sagði hann ennfremur.

Þessi yfirlýsing kemur á slæmum tíma fyrir George W. Bush en mikill þrýstingur hefur verið á hann heima fyrir að koma hernum frá Írak sem fyrst. Óttast repúblikanar að missa stjórn á þinginu í kosningunum sem fara fram þann 7. nóvember næstkomandi vegna stefnu Bush í íraksstríðinu. Yfirmaður breska heraflans kom einnig fram með svipaða yfirlýsingu fyrir nokkrum vikum og verður því áhugavert að fylgjast með viðbrögðum almennings í þessum löndum við beiðni Talabani.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×