Erlent

Saddam Hússein dæmdur til dauða

Saddam Hússein, fyrrverandi forseti Íraks, var í morgun dæmdur til dauða fyrir glæpi gegn mannkyninu. Samkvæmt dómsorði verður hann hengdur. Sjíar fagna dómnum en Súnníar fordæma hann. Mannréttindasamtök segja málsmeðferðina gallaða.

Dómurinn í morgun var kveðinn upp í fyrsta kærumálinu gegn forsetanum en hann var ákærður fyrir aðild að morðum á 148 manns í bænum Dujail árið 1982. Sjíar eru þar í meirihluta. Forsetinn fyrrverandi mun hafa fyrirskipað morðin eftir að reynt var að ráða hann af dögum. 7 til viðbótar voru ákærðir í málinu. 2 voru dæmdir til dauða, 1 í lífstíðarfangelsi, 3 voru dæmdir í 15 ára fangelsi og 1 sýknaður. Þegar dómurinn var kveðinn upp kallaði Hússein að Guð væri öllum æðri, óskaði Írökum langlífi og hvatti til aðgerða gegn svikurum.

Samkvæmt íröskum lögum er málinu sjálfkrafa áfrýjað innan 10 daga og tekur sérstakur áfrýjunardómstóll, skipaður 9 dómurum, málið fyrir. Sú málsmeðferð gæti tekið tæpar 3 vikur. Verði dómurinn frá í morgun staðfestur þarf að framfylgja honum innan 30 daga samkvæmt íröskum lögum.

Annað mál er til meðferðar fyrir dómi gegn Hússein, það eru ákærur um glæpi gegn mannkyninu vegna morða á tug þúsundum Kúrda í Anfal-herferðinni svonefndu árið 1988. Staðfesti áfrýjunardómstóll dóminn frá í morgun er ekki er ljóst hvort hægt verði að taka forsetann fyrrverandi af lífi áður en búið verður að dæma í seinna málinu. Fleiri mál eru einnig í undirbúningi sem tengjast aðgerðum gegn Sjíum og Kúrdum árið 1991, stríðinu við Írana og innrásinni í Kúvæt.

Viðbrögð við dómnum hafa verið blendin. Súnníar fordæma hann en sjíar fagna. Mannréttindasamtök víða um heim hafa sagt málsmeðferðina meingallaða og hvetja til þess að skipan dómstólsins í öðrum málum verði breytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×