David Moyes, knattspyrnustjóri Everton, sagðist hissa á þeirri ákvörðun Steve McClaren að láta framherjan Andy Johnson spila á kantinum með landsliðinu gegn Hollendingum í vikunni.
"Sem þjálfari gætir þú beðið Andy að spila hvar sem er á vellinum og hann myndi gera það, hann er þannig leikmaður. Mér þótti hann engan veginn nýtast úti á hægri kantinum, því hans styrkleiki er að brjótast í gegn um miðjuna og hann gerir það sannarlega ekki ef hann lúrir úti á kanti. Hann hefði örugglega staðið sig betur en raun bar vitni ef hann hefði fengið að spila sína venjulegu stöðu," sagði Moyes, en Johnson hefur ekki skorað í 7 leikjum í röð eftir að hafa verið eldheitur í upphafi og var hann þá kosinn leikmaður mánaðarins.