Kallað var eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar í gærkvöldi til að sækja alvarlega veikan sjúkling til Vestmannaeyja þar sem sjúkraflugvél Landsflugs var ekki í Eyjum þegar til átti að taka.
Flugvöllurinn var ófær venjulegum flugvélum til lendingar en hægt hefði verið að fara þaðan á loft. Sjúkraflugvélin var hins vegar ekki á staðnum og flugmann vantaði til að fullmanna flugvél Flugfélags Vestmannaeyja.
Eftir erfitt flug ákvað áhöfn þyrlunnar að lenda á Eiðinu þar sem ófært þótti með öllu að lenda á flugvellinum. Þangað var sjúklingurinn fluttur um borð í þyrluna sem lenti með hann við Landsspítalann rúmlega klukkustund síðar.
Samkvæmt upplýsingum frá flugvellinum í Vestmannaeyjum hefur sjúkraflugvélin ekki verið staðsett þar síðan á þriðjudag í síðustu vik, með þeirri undantekningu að Dornier-flugvél félagsins sótti einn sjúkling til Eyja á föstudag.
Landsflug tók við sjúkrafluginu um síðustu áramót en síðan þá hafa bæjarstjórn og heilbrigðisráðuneytið ítrekað gert athugasemdir við að félagið standi ekki við gerðan samning á fullnægjandi hátt. Félagið hefur sagt samningnum upp en uppsagnarfrestur rennur ekki út fyrr en eftir allnokkra mánuði, en í hönd fer svartasta skamdegið og tími mikilla veðrabrigða.