Golfstraumurinn hægði á sér um allt að 10% á tímabilinu 1200 til 1850, sem kallað er litla ísöldin, en þetta kom fram í rannsókn sem bandarískir vísindamenn birtu í dag og er búist við því að hún eigi eftir að gefa einhverjar nýjar vísbendingar um gróðurhúsaáhrifin svokölluðu.
Vísindamennirnir sögðu að ekki væri víst hvaða áhrif gróðurhúsaáhrifin myndu hafa á Golfstrauminn. David Lund, einn vísindamannanna á bakvið rannsóknina sagði að Golfstraumurinn gæti haldist eins og hann er en aðeins ef jörðin myndi hitna jafnt í framtíðinni. Ef hún myndi hitna meira á einum stað en öðrum væri líklegt að hann myndi breytast.
Vísindamennirnir bjuggust líka við því að ef Grænlandsjökull myndi bráðna gæti hægt á straumnum að einhverju leyti.