Erlent

Sarkozy vill Tyrki ekki í Evrópusambandið

Nicolas Sarkozy, væntanlegur forsetaframbjóðandi hægri manna í Frakklandi.
Nicolas Sarkozy, væntanlegur forsetaframbjóðandi hægri manna í Frakklandi. MYND/AP

Nicolas Sarkozy, sem ætlar sér að bjóða sig fram til forseta Frakklands á næsta ári, sagði í dag í viðtali á franskri sjónvarpsstöð að hann vildi að öllum viðræðum við Tyrkland um inngöngu í Evrópusambandið væri hætt þar sem "...þeirra staður er ekki í Evrópusambandinu."

Sarkozy hefur ávallt verið á móti aðild Tyrkja að sambandinu og hann ítrekaði stöðu sína í dag. Hann talaði líka um deiluna um Kýpur og sagði að afstaða Tyrkja í henni væri ekki svara verð en Tyrkir eru eina landið sem viðurkennir tyrkneska hluta eyjunnar sem sjálfstætt ríki en þeir hertóku norðurhluta eyjunnar árið 1973.

Segolene Royal, frambjóðandi Sósíalista, hefur sagt að það sé kjósenda að ákveða hvort að Tyrkland eigi að fá aðild að Evrópusambandinu.

Tyrkir frystu öll stjórnmálaleg samskipti við Frakka fyrr í mánuðinum eftir að franska þingið samþykkti lög um að það yrði refsivert að neita því að Tyrkir hefðu framið þjóðarmorð á Armenum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×