Tugir stúdenta brenndu myndir af Mahmoud Ahmadinejad, forseta Írans, og köstuðu kínverjum til þess að trufla ræðu sem hann flutti við háskóla í Teheran, í dag. Þetta er í fyrsta skipti sem Ahmadinejad er sýndur svo opinn fjandskapur, síðan hann vann stórsigur í forsetakosningum árið 2005.
Ekki er alveg ljóst hverju stúdentarnir voru að mótmæla, en þeir hafa krafist meiri pólitískra réttinda í þessu strangtrúaða landi. Stúdentar hafa löngum verið í fremstu víglínu þeirra sem krefjast aukinna réttinda, og meira lýðræðis.
Þeir hafa hinsvegar haft hægar um sig undanfarin misseri, vegna þess að óvægilega er tekið á mótmælendum í landinu. Ekki var þó séð að nokkur væri handtekinn við mótmælin í dag.