Allir lögreglumenn, á vakt í miðborginni um helgina, báru skotheld vesti og sérstakar kylfur vegna margítrekaðra líflátshótana. Hótanirnar eru teknar alvarlega, en þær berast í kjölfar þess að maður lést í vörslu lögreglu í lok nóvember.
Fleiri en ein líflátshótun hafa borist lögreglu frá hópi manna vegna mannsins sem lést eftir hjartastopp en meðal þeirra eru þekktir ofbeldismenn og handrukkarar. Maðurinn hafði verið gestur á Hótel Sögu þar sem hann var með ólæti, truflaði hótelgesti og kastaði til húsgögnum. Lögregla kom á staðinn, setti manninn í handjárn og flutti hann á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Í lögreglubílnum fékk hann hjartastopp en sjúkraliða tókst að lífga manninn við og var hann fluttur á gjörgæslu þar sem hann lést tæpri viku síðar.
Mótmælastaða var við lögreglustöðina á Hverfisgötu í síðustu viku vegna þessa þar sem var hópur fólks auk nokkurra stóra hunda og hafa líflátshótanir borist lögreglu. Hótanirnar eru teknar mjög alvarlega og klæddust lögreglumenn í miðbænum um helgina vestum til að verjast skotum og hnífsstungum. Eins báru þeir stórar kylfur sér til varnar. Þá var viðbúnaður aukinn í miðbænum, fleiri lögreglumenn voru á vakt og var bætt við einum stórum lögreglubíl.
Niðurstöðum krufingar er að vænta innan skamms en þá mun dánarorsök mannsins verða ljós. Embætti ríkislögreglustjóra fer með rannsókn málsins.