Forsætisráðherra Sómalíu skýrði frá því í dag í viðtali við norska blaðið Nettavisen að fjölmargir stríðsmenn uppreisnarmanna í Sómalíu séu norskir, sænskir eða danskir ríkisborgarar.
Mohamed Ali Gedi, forsætisráðherra Sómalíu, sagði meðal annars að uppreisnarmennirnir, nytu fjárstuðnings frá múslimum í Noregi og að hann hefði beðið norsk yfirvöld um að reyna að koma í veg fyrir það.
Sagði hann ennfremur að yfirvöld í Sómalíu hefðu upplýsingar þess efnis að Sómalir í Noregi væru meðlimir í íslamska dómstólaráðinu, en uppreisnarmennirnir kalla sig það, og að hann vonaðist til þess að norska lögreglan myndi gera sitt til þess að hafa hendur í hári þeirra þar sem þeir væru tengdir al-Kaída og styddu hryðjuverkamenn.
Hann sagði einnig að þeir dönsku múslimar sem berðust fyrir uppreisnarmenn myndu fá uppgefnar sakir ef þeir hættu baráttu sinni núna.