Viðskipti innlent

Styttist í Íslenska þekkingardaginn

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings, verðlaun FVH sem besti viðskiptafræðingur ársins 2005 í fyrra.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings, verðlaun FVH sem besti viðskiptafræðingur ársins 2005 í fyrra. MYND/Hari

Félag viðskipta- og hagfræðinga (FVH) efnir til ráðstefnunnar og verðlaunaafhendingarinnar Íslenski þekkingardagurinn á Nordica hóteli fimmtudaginn 22. febrúar í næstu viku. Þetta er í sjöunda sinn sem ráðstefnan er haldin. Þema hennar að þessu sinni er samrunar og yfirtökur.

Á ráðstefnunni verður því fyrirtæki sem þykir hafa skarað fram úr á síðasta ári veitt verðlaun fyrir vel heppnaðan samruna og yfirtökur. Þrjú fyrirtæki eru tilnefnd í þessum flokki. Þau eru Actavis, sem í tvígang hefur hlotið verðlaunin, Össur og Marel, sem hlaut verðlaunin árið 2002.

Að sama skapi verður einstaklingi veitt verðlaun sem þykir hafa skarað fram úr á sviði viðskiptafræði eða hagfræði á síðasta ári.

Fjöldi fyrirlesara verður á ráðstefnunni. Á meðal þeirra eru Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista, Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma, Heiðar Guðjónsson, Novator, Scott Mueller, forstjóri Cass Business School, og Ralph A. Walkling, framkvæmdastjóri í Center for Corporate Governance LeBow College of Business. Ráðstefnustjóri er Bjarni Benediktsson alþingismaður.

Ráðstefnan hefst klukkan 13.15 og er gert ráð fyrir að henni ljúki klukkan 17.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×