Viðskipti innlent

Mæta eftirspurn með fleiri ferðum

Flutningaskipið Samskip Explorer Vegna eftirspurnar hafa Samskip bætt við tveimur skipum á siglingaleið milli meginlands Evrópu, Skandinavíu, Rússlands og Eystrasaltsríkjanna.
Flutningaskipið Samskip Explorer Vegna eftirspurnar hafa Samskip bætt við tveimur skipum á siglingaleið milli meginlands Evrópu, Skandinavíu, Rússlands og Eystrasaltsríkjanna.

Samskip hafa bætt við tveimur skipum á siglingaleiðina milli meginlands Evrópu, Skandinavíu, Rússlands og Eystrasaltslandanna. Að sögn félagsins er þetta gert til að mæta stöðugt vaxandi eftirspurn eftir gámaflutningum á þessari leið.

Flutningaskipið Samskip Explorer, sem flutt getur 803 gámaeiningar og var afhent félaginu nýtt síðasta haust, verður í áætlunarsiglingum milli Hull og Rotterdam, með viðkomu í Álaborg í Danmörku og Helsingjaborg og Varberg í Svíþjóð, á meðan Anna G, sem flutt getur 550 gámaeiningar, verður í siglingum milli Helsingjaborgar og Ventspils í Lettlandi og Klaipeda í Litháen. Frá Eystrasaltshöfnunum segja Samskip svo í boði framhaldsflutninga til Moskvu og annarra áfangastaða í austurvegi.

Að sögn Jens Holgers Nielsen, framkvæmdastjóra gámaflutningaþjónustu Samskipa, dugar ekki til aukning í flutningsgetu félagsins á þessu leiðum fyrir tæpu ári síðan. „Eftirspurnin eftir gámaflutningum á þessum mikilvægu flutningsleiðum er alltaf að aukast því æ fleiri viðskiptavinir vilja frekar nýta sjóflutninga en landflutninga því þeir eru bæði hagkvæmari og umhverfisvænni,“ er eftir honum haft í tilkynningu félagsins.

Nýja siglingaáætlunin tók gildi 22. febrúar. Samskip bjóða jafnframt upp á framhaldsflutninga frá Lettlandi til Moskvu með dótturfyrirtækinu Van Dieren en notar eigin flutningabíla á leiðinni milli Moskvu og Litháen. Taka vöruflutningar milli Hull og Moskvu 12 daga en 11 daga milli Rotterdam og Moskvu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×