Tónlist

Rétti tíminn runninn upp

Söngkonan Birgitta Haukdal segir að fyrsta sólóplata sín, sem er væntanleg fyrir næstu jól, verði mjög ólík því sem hún hefur gert með Írafári. Eitt lagið á plötunni samdi Birgitta þegar hún var níu ára gömul. Sólóplatan verður sungin á íslensku því hana dreymir ekki um frægð í útlöndum.
Söngkonan Birgitta Haukdal segir að fyrsta sólóplata sín, sem er væntanleg fyrir næstu jól, verði mjög ólík því sem hún hefur gert með Írafári. Eitt lagið á plötunni samdi Birgitta þegar hún var níu ára gömul. Sólóplatan verður sungin á íslensku því hana dreymir ekki um frægð í útlöndum. fréttablaðið/valli

Birgitta Haukdal ætlar að gefa út sína fyrstu sólóplötu fyrir næstu jól. Er hún nýbúin að undirrita útgáfusamning við Senu þess efnis.

„Ég hef það á tilfinningunni að núna sé minn rétti tími. Þetta verður mjög spennandi,“ segir Birgitta. „Ég hef ekki viljað gefa út plötu fyrr en rétti tíminn kæmi. Ég er svo mikil tilfinningavera að það þarf allt að hafa sinn rétta tíma og „móment“. Þessi plata verður mjög ólík Írafári. Hún verður mjög Birgittuleg og ætti ekki að koma neinum á óvart. Ég er algjörlega samkvæm sjálfri mér. Þetta verður notaleg plata og persónuleg, ég er bara þannig. Ég vil hafa það sem ég geri svolítið persónulegt.“

Gamalt þverflautulagVignir Snær Vigfússon, félagi Birgittu úr Írafári, tekur plötuna upp með henni auk þess sem þau semja nokkur lög saman. „Við erum svo góðir vinir. Það er gott að vinna með fólki sem maður þekkir 200%,“ segir Birgitta, sem á sjálf nokkur lög á plötunni, þar á meðal fyrsta lagið sem hún samdi þegar hún var níu ára. „Ég samdi það á þver-flautu og tónlistarkennarinn minn var mjög hamingjusamur með það. Hann lét mig spila það á messum og á skólaskemmtunum úti um allt. Ég vildi að þetta lag væri á plötunni sama hvort mönnum fyndist það gott eða ekki. Það er í miklu uppáhaldi hjá mér því þarna fattaði ég að ég gæti kannski eitthvað í tónlistinni.“ Sátt á ÍslandiPlatan verður sungin á íslensku enda er Birgitta ekkert að velta fyrir sér frægð og frama í útlöndum. „Mér þykir svo vænt um íslenska markaðinn að ég þarf ekkert að leita lengra. Ég hef enga löngun til að gera neitt á ensku í þeirri von að einhver uppgötvi mig úti í heimi. Ég vil gera þetta á Íslandi því þar er ég sátt,“ segir hún. Áfram með Stuðmönnum

Þrátt fyrir að sólóferill sé í vændum ætlar Birgitta að halda áfram að syngja með Stuðmönnum eins og hún hefur gert undanfarið eitt og hálft ár með góðum árangri. „Það er búið að vera alveg meiri háttar og ólíkt öllu því sem ég hef gert áður.

Við höldum því starfi áfram,“ segir Birgitta, sem segist samt ekki líta á sig sem Stuðmann. „Ég mun aldrei verða Stuðmaður en ég get kallað mig Stuðkonu. Ragga er Stuðmaðurinn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×