Viðskipti innlent

Fasteignatoppinum náð

Telegraph | Samdráttur á fasteignamarkaði einskorðast ekki við Bandaríkin því vísbendingar eru um að nú hægi á fasteignamarkaði í Bretlandi. Breska dagblaðið Tele­graph segir fasteignaverð í Lundúnum hafa lækkað um 0,1 prósent á milli mánaða í ágúst en þetta mun vera fyrsta verðlækkun ársins. Þetta er reyndar engin nýlunda á þessum tíma árs því fyrir nákvæmlega ári lækkaði verðið um 1,5 prósent á milli mánaða. Blaðið hefur eftir einum fasteignasala að jafn fáar fasteignir hafi ekki verið til sölu á árinu og virðist sem fasteignamarkaðurinn hafi náð hámarki.

Fasteignasalinn segir stýrivaxta­hækkanir Englandsbanka hafa gert fólki í fasteignahugleiðingum afhuga því að skella sér í skuldafen, sérstaklega þegar kemur að kaupum á rándýrum svæðum svo sem á Lundúnasvæðinu. Menn leggja reyndar mismunandi merkingu í orðið „samdráttur" en fasteignaverð í Lundúnum hefur rokið upp síðustu ár, þar af um 25 prósent frá sama tíma fyrir ári.

Óvissa um þróun markaða

Economist | Spár um gengi hlutabréfa eru jafn öruggur leikur og að láta húðflúra nafn kærustunnar á upphandlegginn. Svona grípur greinarhöfundur breska vikuritsins Economist til orða um hræringar á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum þessa dagana. Höfundurinn segir ómögulegt að segja til um hvað muni gerast næstu daga á hlutabréfamörkuðum. Hann segir aðgerðir bandaríska seðlabankans, sem lækkaði daglánavexti banka um 50 punkta á föstudag, gott skref sem hafi komið sér afar vel enda þýði slíkt að álagið á fjármálastofnanir léttist til muna. Brúnin á fjárfestum léttist í leiðinni en það sýndi sig í hækkun undir lok síðustu viku og í byrjun þessarar viku. Mikilvægt sé hins vegar að jafnvægi komist á markaðina áður en hægt verði að spá fyrir um framhaldið, að mati Economist, sem bætir við að haldi hræringarnar áfram í vikunni muni það draga úr líkunum á að spenna á fjármálamarkaði dvíni í bráð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×