Tónlist

Tónleikaferð lokið

Rokkararnir síungu í The Rolling Stones hafa lokið tónleikaferð sinni um heiminn.
Rokkararnir síungu í The Rolling Stones hafa lokið tónleikaferð sinni um heiminn. AFP

Hljómsveitin The Rolling Stones hefur lokið "A Bigger Bang"-tónleikaferð sinni um heiminn sem hefur staðið yfir í tvö ár. Orðrómur hefur verið á kreiki um að þetta sé síðasta tónleikaferð sveitarinnar, enda Jagger, Richards og félagar komnir vel á sjötugsaldurinn.

Jagger var þó spar á yfirlýsingarnar á lokatónleikunum sem voru haldnir í London. Þakkaði hann einfaldlega öllum þeim sem komu og hlustuðu á sveitina fyrir að hafa staðið með þeim félögum þótt ýmislegt hafi gengið á.

Á meðan á tónleikaferðinni stóð misstu bæði Jagger og Richards annað foreldri sitt og Ronnie Wood missti eldri bróður sinn. Richards þurfti einnig að gangast undir skurðaðgerð eftir að hafa dottið úr pálmatré á Fiji-eyjum á síðasta ári.

Stones spilaði á 146 tónleikum í 31 landi fyrir framan 2,2 milljónir áhorfenda. Á meðal þjóða sem sveitin heimsótti í fyrsta sinn voru Kínverjar, Rúmenar og Serbar, auk þess sem hún spilaði í fyrsta sinn á Super Bowl, úrslitaleiknum í ameríska fótboltanum. Tekjur af miðasölu námu um nítján milljörðum króna. Heimildarmynd Martins Scorsese um Stones, Shine a Light, kemur út í apríl á næsta ári og munu Jagger og félagar taka þátt í að kynna þá mynd, endurnærðir eftir langþráða hvíld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×