Viðskipti innlent

Stormur í vatnsglasi

Lokað fyrir almenning? Auðmannaklúbburinn Everlands hefur áhuga á að kaupa laxveiðiár á Íslandi til einkaafnota fyrir meðlimi sína.
Lokað fyrir almenning? Auðmannaklúbburinn Everlands hefur áhuga á að kaupa laxveiðiár á Íslandi til einkaafnota fyrir meðlimi sína.

„Ég held að þetta sé stormur í vatnsglasi, ef ég á að segja eins og er,“ segir Gísli Ásgeirsson, veiðiáhugamaður og stjórnarformaður Lax ehf. Vísar hann þar til áhyggna af því að alþjóðlegi auðmannaklúbburinn Everlands ætli að sölsa undir sig laxveiðiár hér á landi og loka fyrir aðgengi annarra en meðlima klúbbsins.

Meðaljónar fá ekki inngöngu í Everlands enda er meðlimagjaldið um sextíu milljónir króna. Klúbburinn hefur að markmiði að kaupa upp náttúruperlur um allan heim. Á heimasíðu hans er Ísland nefnt sem framtíðarskotmark. Forsvarsmenn Stangaveiðifélags Reykjavíkur hafa lýst yfir áhyggjum af áætlunum klúbbsins.

„Eins og jarðaverð hefur verið að þróast á Íslandi held ég að enginn bíði í röðum til að ná heilli á á Íslandi,“ segir Gísli. „Pínulitlir jarðarskikar eru að seljast á hundrað milljónir sem gefa nokkur hundruð þúsund krónur á ári. Kaupendurnir yrðu að kaupa upp mikinn meirihluta landeignanna við árnar. Til þess þarf að punga út hundruðum milljóna, jafnvel milljarði króna. Ég sé enga yfirvofandi hættu á að það verði.“

Gísli telur að í stað þess að hafa áhyggjur ættu Íslendingar að gleðjast yfir áhuga auðmannanna. Sérstaklega í ljósi þess að áhugi útlendinga á laxveiði á Íslandi hafi dregist saman. „Það er gott að Ísland sé inni á kortinu hvað varðar veiði á alþjóðamarkaði. Við erum að keppa við mjög margar freistingar í veiðibransanum víða um heim.“ - hhs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×