Dallas Mavericks vann í nótt sinn 12. leik í röð í NBA deildinni þegar liðið skellti Indiana á heimavelli 100-91. Þetta er í annað sinn á leiktíðinni sem Dallas vinnur 12 leiki í röð, sem er einstakur árangur á aðeins tveimur mánuðum. Liðið sækir San Antonio heim í nótt klukkan 1 í beinni á Sýn.
Josh Howard var góður í liði Dallas og skoraði 25 stig og hirti 11 fráköst, en hann var kjörinn leikmaður vikunnar á dögunum og setur stefnuna á stjörnuleikinn með spilamennsku sinni. Al Harrington skoraði 24 stig fyrir Indiana.
Detroit vann auðveldan útisigur á New Orleans 92-68. Rip Hamilton skoraði 27 stig fyrir Detroit en Jannero Pargo skoraði 16 stig fyrir meiðslum hrjáð lið New Orleans.
Þá vann LA Lakers góðan útisigur á Sacramento eftir framlengdan leik 132-128, þar sem Kobe Bryant skoraði 42 stig og gaf 9 stoðsendingar hjá Lakers en Mike Bibby skoraði 38 stig fyrir Sacramento.