Bandarískir rannsóknarmenn telja ekkert styðja frásögn bandarískra landgönguliða af aðdraganda fjöldamorða í bænum Haditha í Írak fyrir rúmu ári. Ákærur í málinu voru birtar skömmu fyrir jól og er óttast að málið muni auka enn á ófriðinn í Írak eftir því sem meira kemur fram í dagsljósið.
Átta landgönguliðar voru ákærðir, fjórir fyrir morðin og jafn margir fyrir að hafa hjálpað til við að hylma yfir. Sögðust þeir hafa skotið fimm uppreisnarmenn á flótta eftir að einn úr röðum landgönguliðanna féll í sprengjuárás. Síðan hafi þeir ráðist til inngöngu í nærliggjandi hús í leit að bandamönnum þeirra. Vitni segja landgönguliðana hafa gengið berserksgang og myrt nítján til viðbótar, þar á meðal sex börn á aldrinum 2 til 11 ára.
Rannsóknarskýrslu hefur verið lekið í bandaríska dagblaðið Washington Post þar sem fram kemur að rannsóknarmenn töldu ekkert styðja frásögn landgönguliðanna. Heimildarmenn segja einn þeirra hafa viðurkennt við yfirheyrslur að hafa skotið ítrekað á lík þeirra fimm sem fyrst féllu og migið á einn. Óttast er að réttarhöldin yfir landgönguliðunum dragi margt óhreint fram í dagsljósið sem geti virkað sem olía á eldinn í Írak.
Öðrum dómsmáli var framhaldið í Bagdad í dag. Málið gegn samverkamönnum Saddams Hussein vegna morða á hundrað og áttatíu þúsund Kúrdum á níunda áratug síðustu aldar var þá tekið fyrir, níu dögum eftir að forsetinn fyrrverandi var tekinn af lífi. Fyrsta verk dómstólsins var að fella niður allar ákærur á hendur Saddam.
Greint var frá því í dag að Bush Bandaríkjaforseti myndi á miðvikudaginn kynna nýja áætlun sína í Írak og búist við að hann tilkynni þá að bandarískum hermönnum verið fjölgað þar í landi.